Erlent

Neitar að hafa fleygt börnum sínum

Óli Tynes skrifar
Þyrla bandarísku strandgæslunnar leitar barnanna undir Dauphin brúnni.
Þyrla bandarísku strandgæslunnar leitar barnanna undir Dauphin brúnni.

Rækjuveiðimaður í Alabama í Bandaríkjunum neitar því að hann hafi fleygt fjórum börnum sínum fram af hárri brú.

Sjónarvottur sagði lögreglunni að hann hefði séð Lam Luong fleygja börnunum fram af Dauphin Island brúnni. Hún er 30 metra yfir sjávarmáli. Börnin voru á aldrinum frá eins mánaðar til þriggja ára.

Lam viðurkenndi í fyrstu fyrir lögreglunni að hann hefði framið ódæðið. Til þess að hefna sín á eiginkonu sinni.

Nú hefur hann dregið framburð sinn til baka og lögfræðingur hans segir að hann hafi verið þvingaður til að játa. Lam segir nú að kona sem hann þekkti ekki hafi komið til hans og sagst þekkja eiginkonu hans.

Hún hafi sagst vilja gefa börnunum mat og föt og tekið þau með sér. En ekki skilað þeim aftur.

Lam Luong kom til Bandaríkjanna frá Vietnam árið 1984. Hann bíður dóms í öðru sakamáli; fyrir að hafa á sér kókaín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×