Lífið

Siggi Hall opnar nýjan stað

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
„Ég stefni að því að opna nýjan veitingastað á vori, undir sömu formerkjum, markmiðið er að hann verði besti veitingastaður á Íslandi." segir Sigurður Hall, meistarakokkur. Eins og kunnugt er hætti Siggi nýverið á Óðinsvéum, þar sem hann hefur rekið veitingastaðinn Sigga Hall í rúm átta ár.

Siggi segir að kominn hafi verið kominn tími til að róa á ný mið. „Þetta eru búin að vera ágæt átta eða næstum því níu ár á Óðinsvéum og það var kominn tími á breytingar." segir Siggi, og bætir því við að brotthvarfið hafi verið í góðu.

„Ég er með mörg verkefni, en fyrst um sinn einbeiti ég mér að Food and Fun", segir Siggi, en hátíðin verður haldin þann 20. til 25. febrúar næstkomandi. Nokkur önnur verkefni séu í pípunum, en með vorinu verði ráðist í að opna nýjan stað. Siggi segir enga ákvörðun hafa verið tekna um staðsetningu hans, ekki sé einu sinni víst hvort sá verði í miðbænum.

Aðspurður hvort ekki sé von á honum aftur á skjáinn, útilokar Siggi ekkert. Hann hafi verið í viðræðum um endurkomu í sjónvarp, en líkt og með staðinn hafa engar nánari ákvarðanir verið teknar um það. „Ég er ekkert hættur í sjónvarpi frekar en í veitingabransanum", segir Siggi að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×