Erlent

Þið springið eftir tvær mínútur -myndband

Óli Tynes skrifar

Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur sent frá sér myndbandsupptökur af því þegar fimm íranskir hraðbátar sigldu upp að bandarískum herskipum á Hormuz sundi um síðustu helgi og hótuðu að sprengja þau í loft upp.

Á myndbandinu má sjá að bandarískir sjóliðsforingjar vara Íranana margsinnis við og biðja þá að breyta um stefnu. Hraðbátarnir sigla hinsvegar á mikilli ferð í grennd við herskipin. Þegar hótun berst um talstöð um að bandarísku herskipin muni springa eftir nokkrar mínútur, búa Bandaríkjamenn sig undir að skjóta á bátana.

Áður en til þess kemur beygja hraðbátarnir frá og hverfa. Bandaríkjamenn hafa ástæðu til þess að hafa áhyggjur af þessum bátum þótt þeir séu ekki stórir. Það var einmitt lítill hraðbátur fullur af sprengiefni sem sigldi á tundurspillin Cole í höfninni í Yemen fyrir nokkrum árum.

Tugir sjóliða féllu eða særðust og miklar skemmdir urðu á skipinu. Í dag vöruðu Bandaríkjamenn Írana við því að þeir yrðu að taka afleiðingunum ef leikurinn í Hormuz sundi endurtæki sig.

Skoða myndband




Fleiri fréttir

Sjá meira


×