Erlent

Krókódíllinn rotaður

Óli Tynes skrifar

Tveir breskir tannlæknar hafa unnið mál gegn tískurisanum Lacoste. Tannlæknarnir notuðu mynd af krókódíl til þess að auglýsa tannlæknastofu sína. Lacoste þótti hann of líkur sínum fræga krókódíl og höfðaði mál.

Tannlæknarnir fóru með sigur af hólmi í fyrra en fyrirtækið áfrýjaði til nefndar sem fjallar um höfundarrétt og vörumerki. Sú nefnd hefur nú úrskurðað tannlæknunum í vil.

Í úrskurði hennar segir meðal annars að á vörumerki læknanna standi Tannlæknastofa og að krókódíllinn á því sé hvorki með hið hníflótta bak Lacoste krókódílsins né rauðu tunguna.

Lacoste vörumerkið er komið frá tennisleikaranum Rene Lacoste, sem var upp á sitt besta um 1920. Semsagt fyrir eitthvað um 100 milljón pólóskyrtum síðan.

Lacoste var uppnefndur krókódíllinn. Hann gerði samning við fataframleiðanda að framleiða línu með krókódílsvörumerkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×