Erlent

Kallaðir heim ef samkomulag ógilt

Guðjón Helgason skrifar

Stjórnvöld á Srí Lanka ætla að ógilda 5 ára vopnahléssamkomulag sitt við skæruliða Tamíltígra. Íslendingar og Norðmenn hafa haft eftirlit með því. Kalla þarf eftirlitssveitina heim innan tveggja vikna frá ógildingu.

Fram kemur á vefsíðu Tamíltígranna að stjórnvöld á Srí Lanka hafi tekið þessa ákvörðun á ríkisstjórnarfundi í dag. Ekki mun þó ákveðið hvenær það verði gert formlega. Engin formleg tilkynning mun hafa borist vopnahléseftirlitssveit Íslendinga og Norðmanna.

Vopnahléð hefur verið í gildi frá árinu 2002 en síðustu misseri hefur ítrekað skorist í odda milli stjórnarhers og skæruliða Tamíltígra þrátt fyrir það.

Tígrarnir hafa barist fyrir sjálfstæðu ríki á eyjunni í rúma tvo áratugi. Íslendingar og Norðmenn hafa haft eftirlit með vopnahlénu frá fyrsta degi. Níu Íslendingar eru á Srí Lanka. Danir, Finnar og Svíar voru kallaðir heim í fyrra eftir að Evrópusambandið skilgreindi Tamíltígrana sem hryðjuverkasamtök.

Eftirlitssveitin er hluti af vopnahléssamkomulaginu og þar með lögð niður verði það ógilt. Það tekur þó hálfan mánuð og þá hefur sveitin þann tíma til að pakka saman og fara heim.

Ítarleg aðgerðaráætlun er til staðar um hvernig kalla eigi eftirlitssveitina heim yrði vopnahléssamkomulagið ógilt. Sú heimkvaðning myndi - samkvæmt heimildum fréttastofu - hugsanlega reynast vandkvæðum bundin vegna óstöðuleika og átaka á sumum svæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×