Skoðun

Vandræði í boði ríkisstjórnarinnar

Guðni Ágústsson skrifar
Einar K. Guðfinnsson, ráðherra skrifar hér í Fréttablaðið í gær eina af þessum skondnu greinum sem einkennir málflutning sjálfstæðismanna um þessar mundir. Grein sem á að breiða yfir vandræðaganginn sem fylgir ríkisstjórninni en hún hefur engin tök á efnahagsstjórninni. Á sama tíma koma ábyrgu tvíburarnir í Sjálfstæðisflokknum enn og aftur fram í opnuviðtali í Markaðnum, þeir Illugi Gunnarsson og Bjarni Benediktsson.

Þessir ungu þingmenn rassskella Sjálfstæðisflokkinn fram og tilbaka fyrir dáðleysi í hagstjórninni. Þetta gerðu þeir í Morgunblaðinu upp úr áramótum þegar þeir reyndu að vekja ríkisstjórnina. Þeir benda á margt ágætt, tala í lausnum og á svipuðum nótum og við framsóknarmenn höfum gert í heilt ár.

Hér er óðaverðbólga á ný, gengi krónunnar er fallið um 40% frá áramótum. Skuldir íslenskra heimila hafa vaxið um eitthundrað milljarða frá áramótum. Hér stýrir Seðlabanki í nafni ríkisstjórnarinnar hæstu stýrivöxtum í heimi til að halda í jöklabréfatröllin sem eru erlendir og víðfrægir braskarar sem heimta vexti og engar refjar á peninga sína. Stýrivextirnir áttu að auki að halda verðbólgunni niðri sem mælist nú í 30% í júlí og 15% á árinu, stýrivextirnir áttu að halda genginu uppi, það er kolfallið. Lífskjör almennings eru að rýrna undir handarjaðri þessarar ríkisstjórnar. Sjálfstæðisflokkurinn situr með hendur í skauti og aðhefst ekkert. Samfylkingin stingur hausnum í sandinn og vonar að enginn sjái sig eða muni eftir sér þegar efnahagsvandræðin eru á dagskrá.

Steingrímur Hermannsson er hjarta okkar framsóknarmanna nærri og gott að Einar nefnir nafn hans. Hann þyrfti ekki einn hagfræðing í viðbót við þessar aðstæður, gamli „big red" hefði brett upp ermarnar og tekist á við vandann og skapað þjóðarsátt um varnaraðgerðir. Það sem ég sagði á Bylgjunni í fyrradag um Tryggva Þór Herbertsson nýjan ráðgjafa ríkisstjórnarinnar var þetta: Það þarf ekki einn svona mann í viðbót, það eru 40 hagfræðingar í Seðlabankanum sem heyra undir forsætisráðherra og að auki eru í forsætis-, fjármála-, og viðskiptaráðuneytum mikið af sérfræðingum. Nú þarf alþýðumanninn eða barnið til að segja keisaranum eða forsætisráðherranum að hann sé nakinn og ráðalaus, hann eigi fyrst og fremst að höggva á hnútinn, málin eru oft einfaldari en sérfræðingar vilja vera láta.

Höfundur er formaður Framsóknarflokksins.








Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×