Erlent

Abbas reynir að styrkja sig í sessi

Óli tynes skrifar

Mahmoud Abbas stjórnar frekar litlu. Í júní á síðasta ári ráku Hamas samtökin hann með allt sitt lið frá Gaza ströndinni, eftir harða bardaga.

Og á Vesturbakkanum ráða hin ýmsu samtök vígamanna því sem þau vilja. Abbas forseti ætlar að byrja á því að reyna að ná þar undir sig stærstu borgunum. En eins og venjulega eru Ísraelar ekki mjög hjálpsamir.

Það var svosem allt í lukunnar velstandi þegar liðsauki öryggissveita forsetans héldu innreið sína í Jenin í dag. Þúsundir fánaveifandi íbúa tóku á móti þeim. En þetta felur nöturlegan veruleika.

Það er sótt að Mahmoud Abbas úr öllum áttum. Bæði af hans eigin landsmönnum og Ísraelum.

Hans eigin menn bera á hann vopn og kverkatak Ísraela þýðir að efnahagurinn er í rúst. Abbas á allt sitt undir erlendri efnahagsaðstoð.

Forsetinn reynir nú að taka til í eigin ranni með því að ná stjórn á borgum og bæjum á Vesturbakkanum, sem hafa eiginlega lifað sínu eigin lífi.

Hann byrjaði á borginni Nablus fyrir nokkrum mánuðum, með því að senda þangað nýþjálfaðar öryggissveitir.

Og nú er röðin komin að Jenin. Það gerir forsetanum erfitt fyrir að þrátt fyrir liðsaukann í Nablus halda Ísraelar áfram að ráðast þangað inn í leit að vígamönnum.

Palestínumenn segja að þetta grafi undan valdi heimastjórnarinnar. Ísraelar halda því fram að öryggissveitirnar standi oft með vígamönnunum í stað þess að bjóða þeim byrginn.

Mahmoud Abbas á því enn langt í land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×