Erlent

Neitaði að hitta Condi Rice

Óli Tynes skrifar
Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Forseti kúrdahéraðanna í Norður-Írak neitaði í dag að hitta Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Hún kom í óvænta heimsókn til Íraks í dag.

Á dagskrá hennar var meðal annars að hitta kúrdaleiðtogann Masoud Barzani.

Ástæðan fyrir því að Barzani neitaði að eiga með henni fund er sú að hann telur að Bandaríkjamenn sjái í gegnum fingur sér við Tyrki sem gerðu loftárásir á þorp í Norður-Írak um síðustu helgi.

Tyrkir voru að eltast við skæruliða Kúrdiska verkamannaflokksins svokallaða. Liðsmenn hans hafa myrt fjölmarga Tyrki í árásum yfir landamærin á síðustu mánuðum.

Talsmaður Barzanis sagði við fréttamenn að Bandaríkjamenn stjórnuðu allri flugumferð í Norður-Írak.

Það væri því óhugsandi að Tyrkir hefðu gert þar loftárásir án þeirra samþykkis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×