Erlent

Verkið var ádeila

Guðjón Helgason skrifar

Þórarinn Ingi Jónsson, íslenski listneminn, sem olli miklu fjaðrafoki í Toronto í Kanada í síðustu viku með verki sínu „Þetta er ekki sprengja" segir hugmyndina að baki því meðal annars að taka hluti úr sínu hefðbundna samhengi. Hann gæti átt yfir höfði sér fangelsisvist vegna listsköpunar sinnar.

Listaverkinu - sem er eftirlíking af sprengju - kom Þórarinn Ingi Jónsson, listnemi, fyrir í listasafni í Toronto í Kanada fyrir viku. Því fylgdi myndband sem virðist sýna sprengingu. Safnið var rýmt og lögregla sendi þetta sprengjueyðingarvélmenni til að meðhöndla listaverkið.

Aflýsa þurfti fjáröflunarkvöldverði sem halda átti í nálægri byggingu og urðu samtök sem styðja alnæmisrannsóknir að sögn af milljónum.

Leslie Dunkley, lögreglufulltrúi í Toronto, segir ákærurnar alvarlegar - meðal annars óspektir á almannafæri. Refsingin geti orðið þung fyrir dómi í Kanada.

Þórarni Inga var vísað úr skóla ásamt tveimur leiðbeinendum. Sarah Diamond, rektor Lista- og hönnunarháskólans í Ontario, segir starfsfólk ekki hafa vitað af þessu og að málið og viðbrögð við þessu hafi komið því jafn mikið á óvart og vakið jafn mikinn óhug og hjá almenningi.

Þórarinn Ingi þurfti að dúsa í fangelsi í sólahring en var látinn laus gegn tveggja milljóna króna tryggingu á föstudaginn. Hann gæti átt yfir höfði sér allt að fjögurra ára fangelsi og gæti það tekið allt upp í hálft ár að fá niðurstöðu í málið.

Þórarinn Ingi segir eina hugmyndina að baki verkinu þá að færa hlut úr sínu hefðbundna samhengi. Verkið væri einnig ádeila. Fólk almennt - og sér í lagi í Norður-Ameríku - treysti hvort öðru lítið. Þar snúist allt um vænisýki, dauða og hryðjuverk. Þrátt fyrir að hann hafi merkt verkið skýrt með miða sem á stóð „þetta er ekki sprengja" þá hafi allt farið í háaloft en fólk hafi einmitt haldið að þetta væri sprengja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×