Erlent

Leki olli sprengingu

Sighvatur Jónsson í Árósum skrifar

Leki í efnaverksmiðju í Árósum í Danmörku er talinn orsök gríðarlegrar sprengingar sem í nótt kostaði einn starfsmanna hennar lífið. Líklegt er að sprengihætta hafi skapast þegar efni sem líkist bensíni slapp út í andrúmsloftið.

Sprengingin varð í byggingu efnafyrirtækisins Aarhus Karlshamn sem er með viðamikla starfsemi við höfnina í Árósum. Fyrirtækið framleiðir fituefni sem eru notuð í matvörum og snyrtivörum. Talið er að leki á birgðasvæði verksmiðjunnar í kjallara hennar hafi leitt til sprengingarinnar í nótt. Tveir starfsmenn sem voru á svæðinu sluppu ómeiddir, en sá þriðji, 54 karlmaður, lést samstundis.

Benny Jakobsen, framleiðslustjóri Aarhus Karlshamn, segir alla hjá fyrirtækinu harmi slegna yfir atvikinu. Svona slys mega ekki eiga sér stað.

Talið er að hinn látni hafi farið að leita orsaka leka, þegar hann fann lykt af hinu eldfima efni hexan, sem hefur svipaða eiginleika og bensín. Jakbosen segir það mjög hættulegt þegar efni eins og bensín liggur á gólfi í svona verksmiðju. Við uppgufun myndist mjög sprengifimt efni. Hann segir sprenginguna hafa verið öfluga.

Töluverðar skemmdir urðu á byggingunni. Vegna sprengihættu var kælifroða notuð við slökkvistörf. Lokað var fyrir alla umferð um hafnarsvæðið þar til undir morgun þegar allur eldur hafði verið slökktur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×