Erlent

Ráðist gegn PKK

Guðjón Helgason skrifar

Hérðasstjórn Kúrda lét í morgun loka skrifstofum skæruliðahóps aðskilnaðarsinna í norðurhluta Íraks. Forsætisráðherra landsins sagði í morgun að allt yrði gert til að stöðva skæruliðana og koma í veg fyrir innrás Tyrkja.

Spenna hefur magnast á landamærunum síðustu vikurnar en skæruliðar Kúrda hafa gert fjölmargar árásir í landamærahéruðum Tyrkja og fellt fjölmarga. Síðan hafa þeir skotist aftur yfir landamærin til bækistöðva sinna í Norður-Írak. Tyrkneska þingið hefur veitt her Tyrkja heimild til innrásar svo koma megi í veg fyrir árásir Kúrda. Ráðamenn í Ankara segja það þó síðasta kostinn um leið og hundrað þúsund hermenn bíða skipana við landamærin.

Tyrkir hafa beðið Íraka og Bandaríkjamenn um að taka á skæruliiðunum en fátt hefur verið um svör - deilendur aðeins hvattir til að sýna stillingu enda óttast Írakar og Bandaríkjamenn að ef af innrás yrði myndi ástandið versna á eina friðvænlega svæðinu í Írak og vandinn breiðast út um allt landið.

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kom þó til Tyrklands í gær og sagði við það tækifæri að skæruliðar Kúrda og samtök þeirra, PKK, væru óvinir Bandaríkjamanna ekki síður en Tyrkja.

Nouri al-Maliki, forsætsiráðherra Íraks, situr nú ráðstefnu um öryggismál í Írak sem haldin er í Istanbúl í Tyrklandi. Í ræðu í morgun hét hann því að hart yrði tekið á skæruliðum Kúra og að skrifstofum PKK yrði lokað.

Talsmaður írösku ríkisstjórnarinnar tók í sama streng í viðtali við Reuters fréttastofuna skömmu síðar. Hann bætti við að hernaðaraðgerðir kæmu til greina - allir möguleikar væru á borðinu.

Skömmu síðar bárust fréttir af því að skrifstofum PKK hefði verið lokað. Hvort það dugar Tyrkjum er óvíst - og enn bíðar hermenn þeirra við landamærin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×