Stjórnmálamenn og stjórnarerindrekar þurfa að tjá sig í mörgum löndum. Það eru auðvitað töluð misjöfn tungumál í þessum löndum og það kemur fyrir að boðskapurinn brenglast í þýðingunni. Richard Woolcott sem stýrði ástralska utanríkisráðuneytinu í mörg ár rifjar upp skemmtilegar þýðingarvillur í endurminningum sem hann hefur skrifað um þetta tímabil.
Það var til dæmis ástralski diplómatinn í París sem vildi skjalla franska gesti sína. Hann sagði þeim að þegar hann liti um öxl skiptist líf hans í diplómasíunni í tvennt. Það væru leiðinlegir staðir sem hann hefði verið sendur á....og svo París. Á sinni ágætu frönsku sagði hann; "Þegar ég lít á afturendann á mér sé ég að hann skiptist í tvennt."
Woolcott rifjar upp þegar hann sjálfur flutti ræðu þegar hann var sendur til Palembang í Indónesíu. Woolcott sagði á ensku; "Fyrir mína hönd og eiginkonu minnar langar mig til að segja ykkir hvað ég er ánægður með að vera kominn hingað til Palembang."
Eitthvað var túlkur hans ekki sterkur á svellinu því þýðing hans var á þessa leið; "Mig langar til að segja ykkur hvað ég er ánægður með að vera uppá konunni minni hér í Palembang."
Kevin Rudd, leiðtogi ástralska verkamannaflokksins er rómaður tungumálamaður. Hann var þó ekki búinn að fullnema sig í kínversku þegar hann sagði í Peking; "Ástralía og Kína eru að njóta sameiginlegrar fullnægingar í samskiptum sínum."
Richard Woolcott segir að stundum séu bestu þýðingarnar alls engar þýðingar. Eins og diplomatinn sem sagði langan brandara í veislu í Suður-Kóreu. Túlkurinn skildi ekkert í brandaranum. Engu að síður sagði hann nokkur orð í hátalarann. Og gestirnir veltust um af hlátri og klöppuðu ákaft.
Diplomatinn hrósaði túlki sínum í hástert fyrir hæfnina en hann svaraði; "Í hreinskilni sagt ráðherra þá skildi ég ekki brandarann þinn. En ég sagði við fólkið á kóresku að ráðherrann hefði nú sagt skyldu-brandarann sinn. Og ég bað það um að hlæja hátt og innilega og klappa.