Erlent

Skildu far­þega eftir í fyrri ferð og strönduðu í annarri

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Rees var skilin eftir á Eðlueyju við strendur Ástralíu.
Rees var skilin eftir á Eðlueyju við strendur Ástralíu. Getty

Ástralskt skemmtiferðaskip, sem er undir rannsókn eftir að hafa skilið konu eftir á eyju þar sem hún lést, hefur nú strandað við strendur Papúa Nýju-Gíneu.

Enginn um borð í skipinu slasaðist þegar skipið strandaði um þrjátíu kílómetrum frá Lae, næst stærstu borg Papúa Nýju-Gíneu. Þá er ekki talið að miklar skemmdir hafi orðið á skipinu en enn er verið að skoða skipið ítarlega. 

Í umfjöllun The Guardian segir að farþegarnir, sem eru rúmlega 120, hafi verið fluttir á land á meðan unnið er að því að koma skipinu aftur á flot. Um var að ræða skemmtiferðaskip sem ber heitið The Coral Adventurer.

Það var í lok október sem áttræð áströlsk kona, Suzanne Rees, fór af stað með skipinu í það sem átti að vera sextíu daga lúxusferðalag umhverfis Ástralíu. Á öðrum degi ferðalagsins var hópurinn í gönguferð á Eðlueyju þegar Rees yfirgaf hópinn og var í  kjölfarið skilin eftir á eyjunni. 

The Coral Adventurer var komið í um hundrað kílómetra fjarlægð frá eyjunni, sem tók um fimm klukkustunda siglingu, þegar skipinu var snúið við til að sækja Rees en lík hennar fannst á eyjunni þann 26. október. 

Ferðinni var aflýst í kjölfar andlátsins og rannsókn hafin á málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×