Erlent

Íranar hleypa eftirlitsmönnum inn í landið

Jónas Haraldsson skrifar
Íranar hafa samþykkt að leyfa eftirlitsmönnum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar að fylgjast með starfsemi og byggingu kjarnakljúfsins í Arak.

Ákvörðun Írana er merki um að þeir séu tilbúnir að gefa eftir í deilum sínum við stofnunina og Vesturlönd. Hingað til hafa þeir neitað að hleypa eftirlitsmönnum inn í landið. Það var meira að segja ekki fyrr en árið 2002 sem að umheimurinn komst að tilvist kjarnakljúfsins í Arak þegar að útlægur stjórnarandstöðuhópur sagði frá tilvist hans. Þá hafa Íranar einnig samþykkt að svara spurningum stofnunarinnar um fyrri tilraunir þeirra og að hleypa eftirlitsmönnum að í kjarnorkuveri sínu í Natanz.

Þungt vatn er notað í framleiðslu plútóníums sem hægt er að nota í kjarnorkusprengjur. Þegar kjarnakljúfurinn í Arak verður tilbúinn mun hann sinna slíkri framleiðslu. Vesturlönd hafa því krafist þess að Íranar hætti byggingu hans og auðgun á úrani. Íranar hafa neitað hvoru tveggja. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur beitt landið refsiaðgerðum tvisvar sinnum vegna þess og er nú að íhuga þriðja stig aðgerða.

Viðbrögð almennings í Íran við þessu voru misgóð. Margir töldu að landið hefði rétt á að framleiða bæði plútóníum og auðgað úran í friðsamlegum tilgangi.

Bandaríkin og Evrópusambandið hafa lengi haldið því fram að Íran sé að sækjast eftir því að framleiða kjarnorkuvopn. Stjórnvöld í Íran hafa ávallt neitað því og segjast aðeins vera að framleiða kjarnorku í friðsamlegum tilgangi. Vegna ákvörðunar Mohammed ElBaradei, framkvæmdastjóri Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar sagði samkomulagið geta slegið á þá spennu sem hefur myndast í samskiptum landsins við Vesturlönd.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×