Erlent

Fleiri en þúsund herskáir múslimar hafa gefist upp í Rauðu moskunni

Jónas Haraldsson skrifar
Fleiri en eitt þúsund nemendur við bænaskólann Rauðu moskuna í Islamabad, höfuðborg Pakistan, hafa gefist upp að beiðni pakistanskra yfirvalda.

Pakistanskar öryggissveitir tóku sér stöðu við moskuna í gærdag en þá höfðu 16 manns látið lífið í átökum við hana. Herskáir múslimar hafa aðsetur í henni en þeir vilja að komið verði á ríki í samræmi við kröfur talibana í og við höfuðborgina.

Klerkurinn var síðan handtekinn seint í gærkvöldi þegar hann reyndi að laumast út í kvenklæðum. Hann fullyrti að enn væru um 850 nemendur inni í moskunni, 250 karlmenn og 600 konur, og þar af væru fjórtán þeirra vopnaðir hríðskotabyssum. Öryggissveitir stjórnvalda skutu viðvörunarskotum að moskunni í nótt og biðluðu til þeirra sem enn voru inni að gefast upp. Beiðninni var svarað með stuttri skothríð.

Stjórnvöld hafa staðið í stappi við klerkinn sem stjórnar moskunni og nemendur hennar undanfarna mánuði. Í upphafi var aðeins um mótmæli að ræða en brátt fór að bera meira á þeim. Þeir fóru að ræna konum og sökuðu þær um að taka þátt í vændi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×