Erlent

Brú milli Danmerkur og Þýskalands

Guðjón Helgason skrifar

Danir og Þjóðverjar hafa ákveðið að byggja brú milli Láglands og og Norður-Þýskalands. Brúin verður átján kílómetra löng. Framkvæmdin kostar jafnvirði hátt í 500 milljarða íslenskra króna og á að ljúka 2018.

Það voru þeir Wolfgang Tiefensee, samgönguráðherra Þýskalands, og Flemming Hansen, starfsbróðir hans í Danmörku, sem kynntu framkvæmdaáformin á blaðamannafundin í dag. Einkafyrirtæki og Evrópusambandið munu bera kostnaðinn í sameiningu. Að sögn Danska útvarpsins gengst danska ríkið í ábyrgð fyrir jafnvirði 400 milljarða króna og þýska ríkið ábyrgist jafnvirði 70 milljarða.

Brúin nær frá Rødby á Lálandi í Danmörku og til Puttgarden á þýsku eyjunni Femern og liggur yfir sund sem kennt er við hana. Áætlað er að lestir fari yfir brúnna sem og einkabílar. Hingað til hafa ferðalagar frá Kaupmannahöfn til Hamborgar þurft að fara með bíla sína um borð í ferju frá Rødby og tekur sú ferjuferð í besta falli 45 mínútur. Með brúnni styttist ferðin á milli töluvert.

Brúin mun einnig tengja Dani og Svía enn betur við útflutningsmarkaði sína á meginlandi Evrópu. Sten Tolgfors, viðskiptaráðherra Svíþjóðar, fagnaði framkvæmdinni enda fari tíu prósent af útflutningi Svía á markað í Þýskalandi.

Ekki eru þó allir sáttir við framkvæmdina og hafa ráðamenn í þýsku hafnarborginni Rostock mótmælt fyrirætlaninni og segja að með þessu fækki störfum við rekstur hafnarinnar þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×