Erlent

228 létust í ofsaveðri í Pakistan

Sigríður Guðlaugsdóttir og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Miklar rigningar hafa verið í Karachi síðustu daga en óveðrið náði hámarki í nótt.
Miklar rigningar hafa verið í Karachi síðustu daga en óveðrið náði hámarki í nótt. MYND/AFP

Rúmlega 220 manns hafa látið lífið í höfuðborg Pakistans, Karachi í kjölfar ofsaveðurs í gær. Fjöldi manns lést úr raflosti þegar rafmagnslínur féllu, tré rifnuðu upp með rótum, veggur féll á hóp fólks og fjöldi lét lífið þegar þök á heimilum þeirra hrundu. Ofsarok og hellirigning var í borginni í gær og segja hjálparstarfsmenn á staðnum að mikil flóð hafi orsakað hrun húsa.

Björgunarmenn áttu í erfiðleikum með að koma látnum og slösuðum á spítala þar sem algjört umferðaröngþveiti myndaðist.

Áður hafði verið greint frá því að 43 væru látnir eftir steypiregnið sem stóð samfleytt í þrjár klukkustundir, en í samtali við Reuters sagði heilbrigðisráðherra Sindh héraðs að 228 væru látnir.

Flóðin komu í kjölfar mikilla hita í borginni sem náðu 40 gráðum. Síðustu daga hefur verið rafmagnslaust í borginni sem hefur leitt til uppþota á meðal borgarbúa.

Ekki hefur náðst til fjölda svæða vegna ástandsins og er búist við að tala látinna og slasaðra hækki.

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir á öllum ríkisspítölum og leyfum starfsfólks frestað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×