Erlent

Heimsins ljótasti hundur

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Tveggja ára kínverskur blendingur hlaut þann vafasama heiður í Kaliforníu í gær að vera kosinn heimsins ljótasti hundur. Eigandinn bjargaði honum frá svæfingu fyrir tveimur árum þegar ræktunaraðilinn hélt að enginn myndi vilja kaupa hann, af því hann væri svo ljótur.

Elwood litli var kosinn ljótasti hundur í heimi í árlegri keppni sem haldin var á Marin Sonoma hátíðinni í Kaliforníu. Þetta er í annað sinn sem Elwood tekur þátt í keppninni. Á síðasta ári lenti hann í öðru sæti.

Karen Quigley eigandi hundsins segir fólk sjokkerað þegar það sjái hann í fyrsta sinn. Þeir haldi jafnvel að hann sé api.

Elwood er blanda af kínverskum Crested og Chihuahua. Hann vegur tæp þrjú kílo og er hárlaus, fyrir utan hvítan, móhíkanatopp á enni hans. Vegna þess er hann oft kallaður Yoda eða ET.

Karen hans segir Elwood skjálfa mikið, en það sé mest vegna spennu og tungan lafi út úr munninum hægra megin þar sem hann er tannlaus. Hún segir að ekki sé að hægt að dæma Elwood út frá útlitinu. Persónuleiki hans sé afar elskulegur og fólk laðist fljótt að honum.

Flestir hundarnir sem tóku þátt í keppninni eru einnig kínverskir Crested.

Auk hins konunglega titils hlaut Elwood eitt þúsund bandaríkjadala í verðlaun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×