Erlent

Íranar eiga yfir 100 kíló af auðguðu úrani

Mynd úr kjarnorkuveri Írana.
Mynd úr kjarnorkuveri Írana. MYND/AFP

Íranar hafa framleitt yfir 100 kíló af auðguðu úrani. 500 kíló þarf til þess að smíða eina kjarnorkusprengju. Innanríkisráðherra landsins skýrði frá þessu í ræðu seint í gærkvöldi. Líklegt er að þessar fréttir valdi Vesturlöndum enn frekari áhyggjum. Þau telja að Íranar ætli að verða sér úti um kjarnorkuvopn en því hafa þeir ávallt neitað.

Háttsettur embættismaður Írana sagði hins vegar í morgun að þessar tölur væru ekki réttar. Fréttastöðin ISNA, sem er fréttastöð stúdenta í Íran, hafði þær eftir úr ræðu innanríkisráðherra landsins í gærkvöldi.

Sameinuðu þjóðirnar hafa beitt refsiaðgerðum gegn Írönum en þær hafa engin áhrif haft. Íranar hafa haldið framleiðslu sinni á úrani áfram og segja það rétt sinn að halda úti kjarnorkuveri í þeim tilgangi að framleiða rafmagn.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×