Erlent

Enn ekkert samkomulag á leiðtogafundi ESB í Brussel

Jónas Haraldsson skrifar
Lech Kaczynski, forseti Póllands, á fréttamannafundi eftir fundina í gær.
Lech Kaczynski, forseti Póllands, á fréttamannafundi eftir fundina í gær. MYND/AFP
Leiðtogar ríkja Evrópusambandsins hafa enn ekki náð samkomulagi um nýjan umbótasáttmála. Leiðtogarnir reyna nú að ná sáttum um tillögu Þjóðverja um nýjan sáttmála í stað stjórnarskrárinnar sem franskir og hollenskir kjósendur höfnuðu fyrir tveimur árum. Bretland og Pólland hafa hins vegar hótað að beita neitunarvaldi gegn sáttmálanum ef þau fá ekki sitt fram.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands og núverandi forseti Evrópusambandsins, sagði að á fyrsta deginum hefði ekkert samkomulag náðst. Bretar vilja hafa meiri stjórn á utanríkis- og dómsmálum og Pólverjar eru ósáttir við vægi atkvæða sinna í hinum nýja sáttmála.

Merkel sagði að allt yrði gert til þess að ná samkomulagi í dag en að hún vissi ekki hvort að það yrði mögulegt. Til þess að reyna að koma nýja sáttmálanum í gegn hafa veigamiklar breytingar verið gerðar á stjórnarskránni sem hafnað var. Hvergi er minnst á stjórnarskrá í sáttmálanum og þá geta ríki neitað að taka upp stefnur Evrópusambandsins í lögreglumálum. Ef ekki næst samkomulag um sáttmálann gæti það orðið til þess að kreppa yrði í evrópskum stjórnmálum.

Leiðtogarnir hafa þó náð samkomulagi um eitt mál á fundinum. Kýpur og Malta fá að taka upp Evruna í upphafi næsta árs



Fleiri fréttir

Sjá meira


×