Erlent

Sakar stuðningsmenn Saddams um árásina

Jónas Haraldsson skrifar
Forsætisráðherra Íraks, Nuri al-Maliki, sagði í dag að stuðningsmenn Saddams Hússeins og al-Kaída hefðu staðið á bak við sprengjuárásina á al-Askariya moskuna í Samarra í morgun. Þetta kom fram í sjónvarpsviðtali við hann í morgun. Þá sagðist hann óttast að hryðjuverkamennirnir ætluðu sér að ráðast gegn öðrum moskum í Bagdad og því hefði hann aukið öryggisráðstafanir við þær.

Múktada al-Sadr, leiðtogi Mahdi hersins, sagði stuttu áður að stjórnmálaarmur hersins myndi hætta þátttöku í írakska þinginu vegna árásarinnar. Engu að síður hvatti al-Sadr stuðningsmenn sína til þess að vera rólegir. Sprengjuárás á moskuna í febrúar árið 2006 varð til þess að átök á milli sjía og súnnía mögnuðust. Þúsundir hafa látið lífið í átökunum. Mahdi-herinn samanstendur af sjíum og al-Askariya moskan er einn helgasti staður þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×