Erlent

Ekkert saknæmt við dauða þjálfara Pakistan

Aron Örn Þórarinsson skrifar
AFP

Bob Woolmer, landsliðsþjálfari Pakistana í krikket, var ekki myrtur líkt og haldið var fram þegar rannsókn á dauða hans hófst. Woolmer fannst látinn á hótelherbergi sínu í Kingston á Jamaíku um miðjan mars síðastliðinn, skömmu eftir að landslið Pakistana féll óvænt úr leik á heimsmeistaramótinu í krikket sem haldið var í Vestur-Indíum.

Tekin voru fingraför af öllum leikmönnum liðsins, og einnig athugað með hvort eitrað hefði verið fyrir Woolmer, en engin ummerki voru um að svo hefði verið. Í skýrslu meinafræðings var fullyrt að Woolmer hefði verið kyrktur og upphófst umfangsmikil morðrannsókn sem teygði anga sína víða um heim. Á blaðamannafundi í dag greindi jamaíska lögreglan frá því að Woolmer hefði dáið af eðlilegum orsökum og upplýsingar í skýrslu meinafræðings hafi verið rangar.

Málið er hið vandræðalegasta fyrir lögreglu á Jamaíku en þrátt fyrir það segja heimildarmenn Sky-fréttastofunnar að enginn verði látinn taka pokann sinn vegna þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×