Erlent

35 ára fangelsi fyrir stríðsglæpi

Guðjón Helgason skrifar
Milan Martic var dæmdur í 35 ára fangelsi fyrir stríðsglæpi í morgun.
Milan Martic var dæmdur í 35 ára fangelsi fyrir stríðsglæpi í morgun. MYND/AP

Milan Martic, fyrrverandi leiðtogi uppreisnarmanna Króatíu-Serba, var í morgun dæmdur í 35 ára fangelsi fyrir stríðsglæpi í Króatíu á tíunda áratug síðustu aldar. Hann var sakaður um að hafa skipulagt þjóðernishreinsanir og önnur óhæfuverk.

Það var alþjóða stríðsglæpadómstóllinn í Haag í Hollandi sem kvað upp dóminn í morgun. Réttarhöldin yfir Martic stóðu yfir í eitt og hálft ár, eða frá desemb 2005 og fram í janúar síðastliðinn. Martic, sem er fimmtíu og tveggja ára, barðist fyrir sjálfstæði Serba á árunum 1991 til 1995. Hann var leiðtogi Serba í Krajina-héraði í Króatíu. Hann var sakaður um að hafa skipulagt þjóðernishreinsanir og að hafa flutt alla aðra en Serba úr héraðinu með valdi. Hann var einni sakaður um að hafa skipulagt eldflaugaárás á Zagreb sem varð sjö manns að bana.

Valdatíð Martic lauk þegar Króatar náðu Krajina-héraði á sitt vald 1995. Martic fór þá huldu höfði fram til ársins 2002 þegar hann gaf sig fram við dómstólinn.

Í málflutningi saksóknara var því haldið fram að leiðtogar Serba hafi ætlað sér að leggja undir sig landsvæði Serba í Bosníu og Króatíu og stofna stórt sjálfstætt ríki. Martic var yfirmaður lögreglu á svæðinu áður en til átaka kom. Hann er sagður hafa hjálpað til við að þjálfa lögreglu og sérsveitir Serba og búa þær vopnum. Saksóknari sagði Martic hafa átt stóran þátt í miklu samsæri Slobodans Milosevic, fyrrverandi forseta Júgóslavíu.

Martic er fyrsti leiðtoginn úr Krajina-héraði sem réttað er yfir. Fyrirrennari hans, Milan Babic, kom sér hjá réttarhöldum með því að játa á sig þjóðernishreinsanir og ofsóknir og var dæmdur í þrettán ára fangelsi 2004. Eftirlýstir leiðtogar Bosníu-Serba, þeir Ratko Mladic og Radovan Karadzic, ganga enn lausir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×