Erlent

Tíu ára fangelsi fyrir að þiggja munnmök

Jónas Haraldsson skrifar
Dómari í Georgíufylki í Bandaríkjunum hefur ógilt dóm yfir 17 ára ungling sem var dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir að þiggja munnmök af 15 ára stúlku. Saksóknari ríkisins hefur hins vegar áfrýjað niðurstöðu dómarans og vill halda drengnum í fangelsi.

Genarlow Wilson, sem nú er 21 árs, hefur verið í fangelsi síðan árið 2005. Munnmökin áttu sér stað í áramótapartýi árið 2003 en þau voru framkvæmd með samþykki beggja aðila. Atburðurinn var einnig tekinn upp á myndband.

Þrátt fyrir að dómari hafi ógilt dóminn og breytt honum í 12 mánaða fangelsi, sem Wilson hefur þegar afplánað, er hann ekki laus úr fangelsi. Saksóknari ríkisins hefur sagt að hann muni áfrýja dómnum og því situr Wilson inni enn um sinn.

Wilson var dæmdur á grundvelli laga sem segja munnmök með 15 ára stúlku, þó svo þau séu með samþykki beggja aðila, vera misnotkun á barni og viðurlög við því eru tíu ár í fangelsi. Kynmök voru samkvæmt lögunum ekki misnotkun heldur smávægilegt afbrot og Wilson hefði fengið mun styttri dóm fyrir slíkt.

Lögunum var síðan breytt árið 2006 og munnmök gerð að smávægilegu afbroti, rétt eins og kynmök. Dómurinn sem féll í gær var byggður á nýju lögunum. Saksóknarinn segir hins vegar dómarann ekki hafa heimild til þess að breyta dómum sem falla eftir réttarhöld.

Málið hefur vakið mikla athygli í Bandaríkjunum og hafa margir krafist þess að Wilson verði látinn laus. Þeirra á meðal er Nóbelsverðlaunahafinn Jimmy Carter.

Þetta kemur fram á fréttavef BBC í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×