Erlent

Vill Norrænt tæknisetur utan Evrópu

Esko Aho, fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands.
Esko Aho, fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands.

Norðurlöndin ættu að íhuga það að setja á stofn sameiginleg tæknisetur utan Evrópu. Esko Aho fyrrum forsætisráðherra Finnlands segir þetta í grein sem hann skrifar í dagblaðið Helsinki Sanomat.

"Það sem einkennir Norðurlöndin er að þau eru opin og þau eru háð hinu alþjóðlega hagkerfi. Þess vegna ættu Finnland, Svíþjóð, Danmörk, Noregur og Ísland að íhuga það alvarlega að sameina krafta sína, allavega í Indlandi, Afríku eða Suður-Ameríku", segir Aho, en hann er formaður Sitra, þjóðhátíðarsjóðs Finnlands.

Aho leggur á það áherslu að Norðurlönd hafi verið í fararbroddi í Evrópu meðal annars hvað varðar auknar fjárveitingar til rannsókna og þróunar. En það eru enn mörg tækifæri ónýtt á tæknisviðinu.

"Sérstakleg innan opinbera geirans. Hægt er að bæta árangur og gæði þjónustu hins opinbera verulega með hjálp upplýsingatækninnar", segir hann.

Það sem háir norrænu samstarfi, að mati Aho, er oft það sama og háir Evrópusamstarfi. Leitað er með logandi ljósi að nýjum sviðum til að vinna á, í stað þess að einbeita sér að samstarfi þar sem veruleg þörf er á. Norðurlöndin ættu til að mynda að leggja áherslu á vísindi, tækni og nýsköpun.

"Það er mjög gott að Norræna ráðherranefndin skuli leggja áherslu á þessi svið. Við verðum að vona að ríkisstjórnirnar hafi einnig þá framsýni sem nauðsynleg er til að koma með raunhæfar lausnir", segir Aho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×