Erlent

Bush lofar Búlgörum stuðningi

Jónas Haraldsson skrifar
George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, er nú í Sofíu, höfuðborg Búlgaríu, en hann lýkur þar átta daga ferðalagi sínu um Evrópu.

Bush mun eiga viðræður við þarlenda leiðtoga um framtíð Kosovo og staðsetningu væntanlegs eldflaugavarnarkerfis Bandaríkjanna. Búlgarar hafa áhyggjur af því að verða útundan þegar eldflaugavarnarkerfið verður sett upp og vilja gjarnan vera með í því.

Bandaríkin eru nú að reysa nýja herstöð í Búlgaríu og munu flytja um 3.000 hermenn þangað í september. Vladimir Putin, forseti Rússlands, hefur gagnrýnt bæði eldflaugavarnarkerfið og herstöðina og sagt þau vera ógnun við áhrif Rússa á svæðinu.

Búlgaría varð meðlimur Norður-Atlantshafsbandalagsins, NATO, árið 2004 og gekk í Evrópusambandið á þessu ári. Landið er fátækasti meðlimur þess. Það segist aðeins hafa gömul varnarkerfi byggð upp á úreltum sovéskum búnaði og ekki fjármuni til þess að endurnýja hann. Því vilja stjórnvöld í landinu tryggja að þau geti tekið þátt í eldflaugavarnarkerfinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×