Erlent

Mugabe ráðlagt að draga sig í hlé

Guðjón Helgason skrifar

Robert Mugabe, forseta Simbabve, hefur verið ráðið frá því að sækjast eftir endurkjöri á næsta ári. Ekki er þó víst að hann farið að ráðum samstarfsmanna sinna.

Mugabe, sem er 83 ára, hefur setið á forsetastól frá því landið fékk sjálfstæði árið 1980. Heimildir breska blaðsins Sunday Telegraph herma að ráðgjafar forsetans hafi greint honum frá því í síðasta mánuði að hann myndi líkast til tapa vegna óánægju landa hans með ástand efnahagsmála. Verðbólga í landinu er 3.700% og 80% vinnufærra Simbabve-búa án atvinnu. Honum var ráðlagt að finna annan frambjóðanda úr Zanu-PF flokki forsetans og forða sér þar með frá vandræðalegum úrslitum að ári.

Heimildir herma að Mugabe hafi reiðst ráðgjöfum sínum mjög. Ekki er víst að hann fari að ráðum þeirra. Að sögn Sunday Telegraph mun forsetinn hafa gripið til ýmissa ráðstafana síðustu daga og vikur til að reyna að tryggja sér sigur. Í síðustu viku skipaði hann vopnuðum ungliðasveitum sínum að koma í veg fyrir að stjórnarandstæðingar komist í hin ýmsu þorp á landsbyggðinni.

Flokkur forsetans er sagður klofinn í afstöðu sinni til framboðs hans. Joyce Mujuru, varaforseti, og eiginmaður hennar Solomon Mujuru, fyrrverandi herforingi, munu þrýsta mjög á Mugabe að draga sig í hlé. Talið er næsta víst að Mujuru hjónin taki við völdum í Zanu-PF flokknum við brotthvarf Mugabes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×