Erlent

Bærileg vist í höndum sjóræningja

Óli Tynes skrifar
Danica White
Danica White

Dönsku sjómennirnir á flutningaskipinu sem var rænt undan ströndum Sómalíu í síðustu viku hafa það þokkalegt, samkvæmt upplýsingum sem danska utanríkisráðuneytið hefur aflað sér. Ráðuneytið vill ekki upplýsa hvort það sé í sambandi við sjóræningjana sjálfa. Fimm Danir eru um borð í Danica White.

Skipið hefur sést þar sem það liggur við akkeri utan við hafnarbæinn Hobyo í Sómalíu.

Búist er við að lausnargjalds verði krafist fyrir bæði áhöfn og skip. Óvíst er hvernig verður brugðist við þeim kröfum. Sjórán eru tíð á þessum slóðum og ríki Afríku virðast ekki vera þess megnug að stöðva þau.

Sjórán eru einnig tíð í Asíu, sérstaklega í grennd við Indónesíu. Þar er fjölmörgum skipum rænt á hverju ári. Misjafnt er hvað verður um þessi skip. Sum þeirra hverfa sportlaust, ásamt áhöfnum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×