Erlent

Dregin marga kílómetra undir sendiferðabíl

Óli Tynes skrifar
Lögreglan gat rakið blóðslóðina eftir sendiferðabílinn.
Lögreglan gat rakið blóðslóðina eftir sendiferðabílinn.

Tveir menn hafa verið handteknir í Flórída fyrir að draga konu margra kílómetra leið undir sendiferðabíl sínum. Lögreglan hafði upp á sendiferðabílnum með því að fylgja blóðslóðinni á veginum. Þegar hún fann bílinn var konan látin og mennirnir flúnir af vettvangi.

Sandra Hall var 44 ára gömul og bjó í Fort Lauderdale í Flórída. Mennirnir tveir óku utan í Cadillac bíl fjölskyldunnar. Sandra reyndi að koma í veg fyrir að þeir styngju af með því að stilla sér upp fyrir framan bíl þeirra.

Viðbrögð þeirra voru hinsvegar að keyra á hana á fullri ferð. Hún kastaðist í loft upp og festist svo undir afturhluta sendiferðabílsins.

Mennirnir óku svo á brott á mikilli ferð og drógu hana með sér. Það var ekki fyrr en eftir margra kílómetra akstur sem þeir loks stoppuðu, stukku út og lögðu á flótta.

Lögreglan gat hinsvegar rakið bílinn til þeirra og þeir voru handteknir þar sem þeir voru komnir um borð í flugvél á leið til Grikklands. Þeir eiga yfir höfði sér lífstíðar fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×