Erlent

Kannað með kæru á Íslandi

Guðjón Helgason skrifar

Ættingjar flugliðans Ashley Turner, sem var myrt á varnarsvæðinu á Miðnesheiði árið 2005, ætla að kanna hvort hægt verði að rétta yfir meintum morðingja hennar hér á landi. Í síðasta mánuði sýknaði herréttur í Washington hermann af ákæru um morðið á Turner.

Ashley Turner var tvítug og flugliði í þyrlubjörgunarsveit Keflavíkurflugvallar. Hún fannst liggjandi í blóði sínu í sameiginlegum svefnskála hennar og Calvins Hill, samstarfsmanns, fjórtánda ágúst 2005. Turner lést af völdum höfuðáverka og stungusára á hálsi. Hill var ákærður fyrir að hafa myrt hana en Turner átti að bera vitni gegn honum í þjófnaðarmáli.

Réttað var yfir Hill fyrir herrétti í Bolling-herstöðinni í Washington í Bandaríkjunum. Í síðasta mánuði var hann sýknaður þrátt fyrir að blóð úr Turner hefði fundist á strigaskó hans. Taldi dómur að það hefði getað slest á skó hans þegar herlögregla leiddi Hill í gegnum vettvang morðsins.

Í viðtali við staðarblað í heimabæ sínum í gær segir Jason Turner, bróðir Ashley, að fjölskylda hennar leiti lögfræðings til að sækja einkamál gegn Hill í Bandaríkjunum. Hann segir einnig að kannað verði hvort hægt verði að sækja mál gegn honum á Íslandi þar sem morðið hafi verið framið á varnarsvæðinu á Miðnesheiði. Sá möguleiki verði ræddur við fulltrúa íslenska ríkisins við fyrsta tækifæri.

Jason segist sjá fyrir sér að mögulega verði hægt að ákæra Hill fyrir allt frá manndrápi til morðs af yfirlögðu ráði. Hann segist meta það svo að helmingslíkur á að mál verði rekið á Íslandi.

Í viðauka við Varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 segir að ríkisstjórn Íslands óski ekki eftir að fara með lögsögu í málum varnarliðsmanna sem hún hafi áskilið sér nema um sé að tefla sakir sem hafi sérstaka þýðingu fyrir Ísland. Óvíst er því hvort málið fari lengra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×