Erlent

G8 leiðtogar breiða yfir ágreining í loftslagsmálum

Leiðtogar helstu iðnvelda heimsins ætla sér að breiða yfir ágreining sinn í loftslagsmálum á G8 leiðtogafundinum sem fer fram í Heiligendamm, rétt fyrir utan hafnarborgina Rostock í Þýskalandi á mánudaginn kemur. Þýski kanslarinn Angela Merkel, sem leiðir fundinn, hefur unnið margra mánaða undirbúningsstarf í loftslagsmálum svo samkomulag gæti litið dagsins ljós.

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, virðist þó hafa skotið niður allar hennar fyrirætlanir þegar hann tilkynnti um sína eigin áætlun sem gengur þvert á hugmyndir leiðtoga Evrópuríkja. Því virðist sem að helsta umræðuefnið á fundi leiðtoganna verði málefni Afríku og þau loforð sem strengd voru á G8 fundi í Skotlandi fyrir tveimur árum síðan. Einnig verður rætt um framtíð Kosovo, þó svo ekki sé búist við samkomulagi um það mál.

Mikil mótmæli voru í Rostock um helgina og særðust hátt í 400 lögreglumenn í átökum við mótmælendur. Nærri 140 mótmælendur voru handteknir í átökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×