Erlent

Fleiri en 100 lögreglumenn hafa særst í Rostock

Jónas Haraldsson skrifar
MYND/AFP

Fleiri en 100 lögreglumenn særðust í átökum við mótmælendur í Rostock í Þýskalandi í dag. Mótmælin voru vegna fyrirhugaðs fundar leiðtoga G8 ríkjanna sem verður haldinn þar í næstu viku. Talið er að lögreglumennirnir hafi særst þegar um 500 mótmælendur réðust gegn lögreglu nálægt höfninni í borginni. Fram að því höfðu mótmælin farið friðsamlega fram.

Lögregla beitti táragasi og vatnsfallbyssum gegn mótmælendum sem hentu steinum og flöskum í átt að lögreglunni. Búist er við fleiri en 100.000 mótmælendum til borgarinnar. Margir hópar hafa safnast saman, þar á meðal fólk á móti alþjóðavæðingu og kapitalisma.

G8 fundurinn fer síðan fram í þorpi rétt fyrir utan borgina og hefur lögregla sett upp mikla öryggisgirðingu í kringum það. Mótmælendur ætla sér að loka vegum og reyna að loka herflugvellinum í Rostock til þess að koma í veg fyrir að fulltrúar G8 ríkjanna komist á fundinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×