Erlent

Skelfilegt kjarnorkuslys vofir yfir Evrópu

Óli Tynes skrifar
Tugir rússneskra kjarnorkukafbáta eru að ryðga niður á Kola skaga.
Tugir rússneskra kjarnorkukafbáta eru að ryðga niður á Kola skaga.

Gríðarstórir geymar fullir af notuðum eldsneytis-stjórnstöngum úr vélum Rússneskra kjarnorkukafbáta geta sprungið hvenær sem er. Þeir eru aðeins 50 kílómetra frá landamærum við Noreg. Það yrði hrein kjarnorkumatröð, margfallt verri en kjarnorkuslysið í Chernobyl á sínum tíma.

Geislavarnir Rússlands, Rusatom, skiluðu á síðasta ári skýrslu um kjarnorkuúrgang á Kola skaga. Þar eru tugir rússneskra kjarnorkukafbáta að ryðga niður. Skýrslan er biksvört.

Þar segir að hættan á óstýranlegri keðjuverkun sé margfallt meiri en hingað til hefur verið talið. Skýrslunni var haldið leyndri en komst í hendurnar á umhverfisstofnuninni Bellona, sem hefur gert hana opinbera.

Á Vesturlöndum hefur lengið verið vitað að kjarnorkuúrgangur á svæðinu milli Kirkjuness í Noregi og Murmansk í Rússlandi væri hættulegur. Talað var um mögulega stórfellda hættu fyrir Noreg. Bellona túlkar skýrslu Rusatom þannig að ástandið sé miklu alvarlegra en svo.

Jonas Störe utanríkisráðherra Noregs segir að norsku ríkisstjórninni hafi verið kunnugt um vandann. Ekkert nýtt sé í upplýsingum Bellona. Bellona segir aftur að það sé nýtt að sjór sé farinn að leka inn í geymana, sem gerbreyti ástandinu.

Samtökin spyrja hvernig í ósköpunum það megi vera að ríkisstjórnin hafi vitað um þessa auknu hættu án þess að gera þjóðinni grein fyrir henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×