Erlent

Fréttamaður BBC segist við góða heilsu

Óli Tynes skrifar

Breski fréttamaðurinn Alan Johnston sagði að ræningjar hans hafi komið vel fram við sig, í myndbandsupptöku á netinu, sem sýnd var í dag. Upptakan var ekki dagsett. Johnston var rænt á Gazaströndinni 12. mars síðastliðinn. Hann er fréttamaður BBC. Ræningjar hans kalla sig Her islams. Þeir krefjast þess að múslimar í breskum fangelsum verði látnir lausir í skiptum fyrir Johnston.

Á myndbandinu segir Johnston að hann hafi ekki verið beittur neinu ofbeldi. Hann fái nóg að borða og sé við góða heilsu. Hann gagnrýndi bresk stjórnvöld og sagði að framganga þeirra sýndi að þau vildu leggja undir sig lönd múslima.

Hann gagnrýndi einnig að breskir hermenn skyldu standa við hlið bandarískra í Afganistan og Írak.

Saeb Erekat ráðgjafi Mahmoud Abbas, forseta Palestínu hefur kallað ræningja Johnstons glæpamenn sem skaði málstað Palestínumanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×