Erlent

Lugovoi segir Litvinenko hafa unnið fyrir bresku leyniþjónustuna

Jónas Haraldsson skrifar
Andrei Lugovoy segir Litvinenko hafa unnið með bresku leyniþjónustunni þegar hann var myrtur.
Andrei Lugovoy segir Litvinenko hafa unnið með bresku leyniþjónustunni þegar hann var myrtur. MYND/AP

Andrei Lugovoi, maðurinn sem er grunaður um að hafa myrt fyrrum KGB njósnarann Alexander Litvinenko, sagði morgun að Litvinenko hefði verið að vinna með bresku leyniþjónustunni þegar hann var myrtur. Hann segist jafnframt hafa sannanir fyrir því breska leyniþjónustan eigi þátt í dauða Litvinenko. Þetta kom fram á fréttamannafundi sem nú stendur yfir í Moskvu.

Rússar hafa neitað að framselja Lugovoi. Hann sagði að breska leyniþjónustan hefði ráðið Litvinenko og hann síðan ráðlagt þeim að hafa samband við Boriz Berezovsky, rússneskan auðjöfur sem er í útlegð í Bretlandi. Lugovoi sagði að Berezovsky hefði eftir það unnið fyrir MI6 og afhent bresku leyniþjónustunni ýmis leynileg skjöl.

Hann sagði að hann grunaði ákveðna aðila um að hafa myrt Litvinenko. Lugovoi tilgreindi þá ekki en sagðist hins vegar gruna að breska leyniþjónustan hefði sjálf verið viðriðin málið. Litvinenko hefði verið útsendari þeirra sem hefði ákveðið að fara sínar eigin leiðir og þess vegna verið myrtur.

Þá sagði Lugovoi að breska leyniþjónustan hefði einnig reynt að hafa samband og fá hann til þess að vinna fyrir sig. Hann hefði átt að safna upplýsingum um Vladimir Putin, forseta Rússlands, og meðlimi fjölskyldu hans.

Lugovoi neitaði því aftur að hafa myrt Litvinenko og sagði að hann hefði hreinlega enga ástæðu til þess. Þeir hefðu ekki verið óvinir og að þau verkefni sem Litvinenko hefði verið að vinna að hefðu ekki komið óþægilega við hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×