Erlent

Chavez hótar Globovision

Hugo Chavez, forseti Venesúela, hótaði í gær að loka annarri sjónvarpsstöð sem gagnrýnt hefur störf hans. Fjórða daginn í röð kom til átaka á milli lögreglu og fólks sem mótmælti lokun RCTV-sjónvarpsstöðvarinnar í síðustu viku.

RCTV-sjónvarpsstöðin framleiðir meðal annars sápuóperuna um Valentínu sem áhorfendur Stöðvar 2 kannast við en hún er ekki ástæðan fyrir því að leyfi hennar var ekki endurnýjað í síðustu viku, heldur fullyrði Hugo Chavez, forseti landsins, að stjórnendur hennar hafi bruggað sér banaráð. Eina stjórnarandstöðusjónvarpsstöðin sem er eftir í landinu, Globovision, hefur undanfarna daga mótmælt lokuninni og þar með bakað sér reiði forsetans. Í ræðu sem hann hélt í gær hótaði hann að loka stöðinni héldu stjórnendur hennar sig ekki á mottunni.

Allt hefur logað í mótmælum í höfuðborginin Caracas vegna lokunar RCTV og í gær kom til átaka á milli lögreglu og mótmælenda fjórða daginn í röð. Táragasi og gúmmíkúlum var óspart beitt og hátt í tvö hundruð manns voru hnepptir í varðhald.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×