Erlent

Zoellick verður forseti Alþjóðabankans

Jónas Haraldsson skrifar
Zoellick sést hér tilkynna afsögn sína sem aðstoðarutanríkisráðherra þann 19. júní árið 2006 en hann fór síðan að vinna hjá Goldman Sachs.
Zoellick sést hér tilkynna afsögn sína sem aðstoðarutanríkisráðherra þann 19. júní árið 2006 en hann fór síðan að vinna hjá Goldman Sachs. MYND/AFP
Robert Zoellick verður næsti forseti Alþjóðabankans. Bandarískir embættismenn skýrðu frá þessu í gær.

Zoellick kemur í stað Paul Wolfowitz, sem sagði af sér vegna hneykslismáls. Wolfowitz var sakaður um að hafa brotið reglur bankans þegar hann aðstoðaði kærustu sína við að fá betri stöðu og hærri laun hjá bankanum. Fyrsta verkefni Zoellick, ef stjórn bankans samþykkir tilnefningu hans, verður því að auka trúverðugleika bankans, jafnt innávið sem útávið.

Aðalhagfræðingur Alþjóðabankans, Francois Bourguignon, sagði í viðtali við breska ríkisútvarpið að Zoellick hefði reynslu sem gæti nýst honum vel í starfi. Zoellick tók þátt í Doha viðræðunum fyrir hönd Bandaríkjanna og sú reynsla mun án efa hjálpa honum því að starfsemi Alþjóðabankans snýst fyrst og fremst um að auka tækifæri þróunarrríkja í viðskiptum og stuðla þannig að aukinni velmegun almennings í þriðja heiminum.

Þá var hann um tíma aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna og fór sem slíkur í fjórar ferðir til Darfúr. Sem stendur vinnur hann sem framkvæmdastjóri hjá fjárfestingarfyrirtækinu Goldman Sachs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×