Erlent

Vill einhver karrí ?

Óli Tynes skrifar
Örbylgjuofninn sprakk í tætlur.
Örbylgjuofninn sprakk í tætlur.

Flugfreyja hjá British Airways var orðin hundleið á flugvélamat og því keypti hún tilbúinn karrí rétt til þess að hafa með sér í flug. Hún hugðist nota örbylgjuofn flugvélarinnar til þess að hita réttinn. Hún virðist ekki hafa vitað að örbylgjuofnar í flugvélum eru rúmlega helmingi öflugri en örbylgjuofnar sem eru notaðir á jörðu niðri. Það þarf því að pakka flugvélamat í sérstakar umbúðir til þess að þær þoli geislunina.

En þetta vissi flugfreyjan semsagt ekki. Þegar hungrið svarf að stakk hún því karríréttinum sínum í örbylgjuofninn og setti á fullt. Nokkrum mínútum síðar fengu allir farþegarnir á fyrsta farrými karrí. Ofninn sprakk í tætlur og innihaldið dreifðist út um allt.

Ofninn stóð eftir í björtu báli, en þótt svanga flugfreyjan hafi ekki vitað mikið um örbylgjuofna þá kunni hún sannarlega að meðhöndla slökkvitæki. Hún slökkti eldinn á örskammri stundu og hófst svo handa við að skafa matinn sinn af farþegunum.

Tjónið á ofninum og flugvélinni kostar British Airways um þrjár milljónir króna, að sögn talsmanns. Óhappið mun ekki hafa nein eftirköst fyrir flugfreyjuna sem bjó til karríbombuna. Nýrri klásúlu hefur þó verið bætt inn í öryggisreglur félagsins. Flugliðum er bannað að hafa með sér tilbúinn mat.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×