Erlent

Vísindahvalveiðar lítillækka Japani

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Ástralir segja hvalveiðar Japana í vísindaskyni gera lítið úr vísindum. Á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Alaska, sem hófst í gær, sögðu þeir að Japanir notuðu útskýringuna einungis til að komast hjá hvalveiðibanninu. Veiðarnar lítillækki bæði Japani og Hvalveiðiráðið.

Nýsjálendingar tóku í sama streng og Ástralir og sögðu enga hagnast á vísindahvalveiðum. Þeir hvöttu Japani til að hætta við áform um að veiða fimmtíu Hnúfubaka á næstu vertíð. Japanir segjast tilbúnir til að komast að samkomulagi um fjölda þeirra. Vísindaveiðum japana hefur verið harðlega mótmælt, en þeir veiða eitt þúsund hvali á ári í vísindaskyni en selja síðan kjötið.

Fjöldi mótmælenda er samankominn í Anchorage til að fylgjast með framvindu á ráðstefnunni. Sérstaklega er fylgst með setningu kvóta á hvalveiðum innfæddra í Alaska.

Gert er ráð fyrir að á fundinum ljúki með staðfestingu á hvalveiðibanninu sem verið hefur í gildi í 21 ár, þrátt fyrir táknræna samþykkt á síðasta fundi um að aflétta banninu. Til að fella það þyrfti 75 prósent atkvæða. Það hafðist ekki í fyrra. Þjóðum sem eru mótfallnar hvalveiðum hefur hins vegar fjölgað í ráðinu síðan þá.

Íslendingar, Japanir og Norðmenn halda því fram að bannið sé óþarft nú þar sem tegundir hafi fjölgað sér. Ísland og Noregur virða bannið að vettugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×