Erlent

Slóst við hlébarða um köttinn sinn

Óli Tynes skrifar

Ísraelskur maður sneri á dögunum niður hlébarða sem kom inn í svefnherbergi hans og hugðist éta köttinn hans. Arthur De Mosh vaknaði við mikil læti og sá hlébarðann sækja að kettinum. De Mosh stökk á skepnuna og hafði hana undir. Eiginkona hans hringdi eftir hjálp meðan hann hélt hlébarðanum niðri.

Þetta gerðist í háskólahverfi í eyðimörkinni í suðurhluta Ísraels. Sérfræðingar telja að þar lifi nú aðeins tíu hlébarðar villtir í náttúrunni. Dýralæknir segir að hlébarðinn sem vakti De Mosh sé horaður og illa haldinn. Hlébarðar eru þó stórar skepnur og öflugar og þykir mesta mildi að bæði maðurinn og kötturinn skyldu sleppa næsta lítið meiddir.

Farið var með hlébarðann á dýraspítala þar sem hann fær aðhlynningu áður en honum verður sleppt aftur. Arthur De Moss á líklega þakklátasta kött í öllu Ísraelsríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×