Erlent

SAS aflýsir flugi á morgun

Skandinavíska flugfélagið SAS hefur aflýst flugi til og frá Svíþjóð á morgun. Það er fimmti dagurinn í röð sem verkfall sænskra flugliða lamar rekstur félagsins.

Verkfallið hófst á föstudag. SAS hætti þá við flest flug til og frá Svíðþjóð vegna deilunnar um vinnuaðstæður flugliðanna. Samningaumleitanir stóðu fram á nótt og báru ekki árangur. Sáttasemjarar funduðu með deiluaðilum í dag í sitt hvoru lagi og búast við að leggja fram málamiðlunartillögu seinna í dag. Mikið ber þó í milli.

SAS aflýsti um 275 flugum í dag. Verkfallið hefur ekki áhrif á flug félagsins til Bandaríkjanna og Asíu, eða flug frá öðrum norðurlöndum. Um 70 þúsund farþegar hafa orðið fyrir óþægindum vegna verkfallsins.

Félagið hefur hótað því að náist samningar ekki í dag muni það hafa afleiðingar fyrir flugliðana 800 sem taka þátt í verkfallinu. Aðallega er deilt um hvíldar- og matartíma. Flugfélagið áætlar að verkfallið kosti það allt að tvö hundruð milljónum íslenskra króna á dag.

SAS hefur reynt að skera niður kostnað til að vera samkeppnishæfara við lággjaldaflugfélög en hátt eldsneytisverð spilar einnig inn í.

Flugliðarnir segjast hafa gengist undir verri kjör á sínum tíma þegar afkoma félagsins var afar slæm en nú þegar hún hefur batnað vilja þeir fá bót á kjörum sínum.

Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Icelandair segir verkfallið lítið hafa bitnað á íslenskum farþegum, þar sem að mestu sé um að ræða innanlandsflug í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×