Erlent

Stjórnmálakreppunni afstýrt

Vonast er til að stjórnmálakreppan í Úkraínu sé að leysast eftir að Viktor Jústsjenkó, forseti landsins, og Viktor Janukovits, forsætisráðherra, tókst loks að koma sér saman um kjördag fyrir þingkosningarnar í landinu. Ólgan náði hámarki í gær þegar Jústsjenkó lét setja herlið í viðbragðsstöðu.

Loftið hefur verið lævi blandið í Úkraínu í margar vikur, eða allt frá því í aprílbyrjun þegar Jústjsenkó forseti leysti upp þing landsins, að sögn vegna ólöglegra tilburða Janukovits forsætisráðherra til að sölsa þar undir sig öll völd. Þeir hafa síðan karpað um hvenær halda skuli nýjar þingkosningar og með hverjum árangurslausum fundinum hefur ólgan í landinu vaxið. Spennan náði nýjum hæðum í gær þegar Jústsjenkó setti herlið innanríkisráðuneytisins í viðbragðsstöðu eftir enn einn fund þeirra Janukovits en degi áður hafði hann tekið yfir stjórn þess, forsætisráðherranum til mikillar gremju. Öllum að óvörum tókst hins vegar þessum fornu fjendum að komast að samkomulagi á tólf klukkustunda löngum fundi í nótt um að boða til kosninga 30. september næstkomandi. Á blaðamannafundi að fundinum loknum lýsti Jústsjenkó því yfir að stjórnmálakreppan væri afstaðin og samkomulag hefði náðst sem báðir aðilar sættu sig við. Léttara var yfir íbúum Kænugarðs í dag en marga undanfarna daga en flestir gera sér þó grein fyrir að enn á eftir að ráðast að rót deilu þeirra félaga, í besta falli er hægt að kalla samkomulagið gálgafrest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×