Erlent

Stjórnarkreppa leyst með samkomulagi í Úkraínu

Forseti Úkraínu kallaði á liðstyrk hersins en hefur nú samið um málamiðlun í deilunni við forsætisráðherrann.
Forseti Úkraínu kallaði á liðstyrk hersins en hefur nú samið um málamiðlun í deilunni við forsætisráðherrann.
Forseti og forsætisráðherra Úkraínu sömdu í morgunsárið um að þingkosningar verði haldnar í landinu 30. september. Þar með leystu þeir stjórnarkreppu sem komin var á alvarlegt stig.

"Við munum gera allt sem við getum til að svona lagað endurtaki sig ekki," sagði Viktor Janúkovits forsætisráðherra eftir 12 klukkustunda maraþonfund með forsetanum, Viktor Jústsénko.

Litlu munaði að til átaka kæmi fyrir helgi þegar upp úr sauð. Forsetinn skipaði 3.500 manna herliði að halda inn í Kænugarð, höfuðborg landsins, en sveitir hliðhollar forsætisráðherranum vörðu þeim veginn inn í borgina.

Þegar allt stefndi í óefni settust stjórnarleiðtogarnir á rökstóla með nokkrum lykilmönnum á úkraínska þinginu. Nú í morgun komu þeir fram og skrifuðu undir samkomulag, sem þeir sögðu að væri málamiðlun í deilunni.

Jústsénko varð forseti í appelsínugulu byltingunni, svokölluðu, í Úkraínu í janúar 2005 en neyddist til að skipa Janúkóvits forsætisráðherra eftir að slæmt gengi bandamanna sinna í þingkosningum í mars 2006. Forsetinn vill auka verulega samskiptin við ríki Vestur-Evrópu en forsætisráðherrann er talinn hliðhollur stjórn Pútins í Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×