Erlent

Aung San áfram í fangelsi

Óli Tynes skrifar
Aung San Suu Kyi.
Aung San Suu Kyi.

Herforingjastjórnin í Myanmar hefur framlengt stofufangelsi yfir andófskonunni Aung San Suu Kyi í eitt ár. Aung San er þekktasti pólitíski fangi Myanmars, sem áður hét Burma. Hún hefur hlotið friðarverðlaun Nóbels og flokkur hennar vann yfirburðasigur í kosningum árið 1990. Herforingjastjórnin neitaði að viðurkenna úrslitin og sat sem fastast.

Aung San hefur verið í stofufangelsi meira og minna síðan árið 1989. Henni er haldið í einangrun í húsi sínu. Hún hefur engan síma, póstur hennar er ritskoðaður og mjög er takmarkað hverjir fá að heimsækja hana. Andófskonan er nú sextíu og eins árs gömul.

Faðir hennar var þjóðhetja í Burma sem var myrtur þegar hún var tveggja ára gömul. Það var sex mánuðum áður en Burma fékk sjálfstæði frá Bretum. Faðirinn átti stóran hlut í samningunum sem leiddu til sjálfstæðis. Aung San las heimspeki, stjórnmálafræði og hagfræði við Oxford háskóla í Bretlandi.

Hún kvæntist breskum lærdómsmanni, Michael Aris. Þegar hann lést í Bretlandi árið 1999 hafnaði hún boði herforingjastjórnarinnar um að fara og vera við jarðarför hans. Hún þóttist viss um að hún fengi ekki að snúa heim aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×