Erlent

McDonalds vill breyta skilgreiningu á McStarfi

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
MYND/AFP

Skyndibitarisinn McDonalds hefur farið fram á að skilgreining á hugtakinu McJob verði breytt. Í orðabókum er orðið skýrt sem lýsing á starfi sem sé ekki hvetjandi, illa borgað og bjóði upp á lítinn ávinning eða möguleika á stöðuhækkun. McDonalds segir að þessi lýsing sé úrelt og móðgandi.

Fyrirtækið segir að könnun hafi leitt í ljós að 69 prósent Breta séu sammála að skilgreininguna þurfi að uppfæra til nútímans.

„Núverandi lýsing er sérstaklega móðgandi við þá 67 þúsund starfsmenn sem vinna fyrir McDonalds í Bretlandi," sagði David Fairhurst aðstoðarforstjóri fyrirtækisins við BBC.

Hann sagði skilgreininguna einnig móðgandi við aðra sem ynnu á veitingastöðum og í ferðamannaþjónustu.

Fyrirtækið segist setja 90 prósent starfsmanna sinna í þjálfun sem nýtist þeim út lífið. Og 82 prósent starfsmanna myndu mæla með fyrirtækinu við vini sína.

„Það er kominn tími til að Oxford orðabókin breyti skilgreiningunni," sagði Fairhurst.

Gagnrýnendur segja þó að orðabækur eigi að lýsa heiminum eins og hann er, ekki eins og fyrirtæki vilji að hann sé sýndur.

Nú liggja fyrir undirskriftarlistar á McDonalds í Bretlandi þar sem viðskiptavinir geta skrifað nafn sitt. Eða á heimasíðu sem stofnuð hefur verið af þessu tilefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×