Erlent

Gleðitíðindi fyrir farsímanotendur í Evrópu

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
MYND/Getty Images

Kostnaður við að hringja úr farsíma í Evrópu mun lækka verulega ef ný áætlun Evrópusambandsins gengur í gegn. Lögmenn ESB hafa ákveðið að styðja ákvörðun um að setja þak á rokkandi farsímagjöld. Sú upphæð sem farsímanotendur eru nú rukkaðir fyrir að nota farsímana í útlöndum, mun lækka um allt að 75 prósent.

Á fréttavef BBC segir að þetta muni hafa áhrif á símreikninga meira en 150 milljón Evrópubúa. Áætlunin mun þó ekki koma til áhrifa fyrr en seint á þessu ári og tekur ekki til SMS sendinga.

Framkvæmdastjórn ESB og ríkisstjórnir aðildarlandanna 27 eiga eftir að samþykkja áætlunina, þó er það einungis talið formsatriði.

ESB hefur í nokkurn tíma reynt að hafa stjórn á kostnaði við farsímanotkun í útlöndum, en mikill munur er á hvað notendur þurfa að borga í mismunandi löndum sambandsins.

Eftir breytinguna mun kostnaður við að taka á móti símtali í útlöndum vera undir 20 íslenskum krónum, og kostnaður við að hringja í útlöndum að hámarki 50 krónur mínútan. Á þriggja ára tímabili muni kostnaðurinn minnka í innan við 17 krónur við að taka á móti símatali, og innan við 40 krónur fyrir að hringja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×