Erlent

Þekkt seglskip brann í Lundúnum

Guðjón Helgason skrifar

Eitt þekktasta seglskip 19. aldar, Cutty Sark, nær eyðilagðist í miklum bruna í Lundúnum í dag. Grunur leikur á að kveikt hafi verið í því. Skipið hefur dregið að sér fjölmarga forvitna ferðamenn en er nú skaðbrennt flak.

Seglskipið Cutty Sark var smíðað í Skotlandi árið 1869 og var eitt það síðasta sinnar tegundar. Skipið var afar hraðskreitt og notað til að flytja te frá Kína til Bretlands. Þegar gufuskip voru tekin í notkun var það selt til Portúgal og síðan Suður-Afríku. 1922 var það keypt aftur til Bretlands og notað sem æfingaskip. Síðan 1954 hefur Cutty Sark verið í þurrkví í Greenwich í Lundúnum og margir ferðamenn skoðað þetta sögufræga skip þar.

Sjóður var stofnaður um rekstur skipsins. Því var lokað fyrir skömmu þegar byrjað var að gera endurbætur á því en járngrind skipsins hafði ryðgað hratt vegna seltu í sjónum.

Á fjórða tímanum í nótt var slökkvilið kallað að skipinu en þá logað töluvert í því. Rúma tvo tíma tók að slökkva eldinn. Skemmdir eru miklar en talsmaður Cutty Sark sjóðsins segir skipið ekki ónýtt eins og fyrst var óttast. Það kosti margar milljónir að laga skipið og enduropnun, sem var fyrirhuguð eftir tvö ár tefjist nú um óákveðinn tíma.

Vitni hafa sett sig í samband við Lundúnarlögregluna og lýst grunsamlegum ferðum fólks við skipið skömmu áður en eldurinn kviknaði. Lögregla segist því ekki útiloka íkveikju og skoðar nú upptökur úr eftirlitsmyndavélum í næsta nágrenni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×