Erlent

Erfitt að senda hjálpargögn

Guðjón Helgason skrifar
MYND/AP

Sameinuðu þjóðirnar og Rauði krossinn hafa ekki getað sent hjálpargögn inn í flóttamannabúðir í Norður-Líbanon í dag vegna átaka stjónarhers og herskrskárra Palestínumanna. Um 70 hafa fallið þar síðan í gær og margir særst. Ráðamenn í Beirút segja Sýrlendinga standa að baki ófriðnum. Þetta eru mestu innanlandsátök í Líbanon síðan endir var bundinn á borgarastyrjöld þar í landi fyrir 17 árum.

Upp úr sauð í gær þegar lögreglan í Trípólí reyndi að handtaka liðsmenn Fatah al-Islam samtakanna sem grunaðir voru um bankarán. Til skotbardaga kom og herinn kallaður á vettvang. Þá var gerð árás á varðstöðvar hersins nærri Nahr al-Bader flóttamannabúðunum þar sem um þrjátíu þúsund Palestínumenn halda til og herská samtök múslima sögð fela liðsmenn og þjálfa. Líbanski herinn má ekki fara þar inn samkvæmt nærri fjögurra áratuga gömlu samkomulagi Líbana við Frelsissamtök Palestínumanna, PLO.

Enn var barist í Trípólí í Norður-Líbanon í dag. Herinn lét sprengjum rigna yfir Nahr al-Bader flóttamannabúðirnar sem voru umkringdar snemma í morgun. Árásunum var svarað. Fulltrúar Rauða krossins fluttu 18 særða borgara úr búðunum síðdegis og ætluðu fulltrúar Sameinuðu þjóðanna og Rauða krossins inn í þær með hjálpargögn. Þá þögnuðu byssur fylkinganna en gelt þeirra hófst þó aftur áður en bílaest með lyf og nauðsynjar komst inn í búðirnar.

Fatah al-Islam samtökin klofnunðu úr öðrum sýrlenskum og sögð tengjast al-Kaída hryðjuverkasamtökunum. Líbanar segja Sýrlendinga beita þeim fyrir sig til að skapa sem mestan glundroða í Líbanon. Helstu samtök Palestínumanna vilja ekkert með liðsmenn Fatah al-Islam hafa og leiðtogar súnnía í Líbanon styðja aðgerðir hersins.

Sýrlendingar segjast ekki tengjast Fatah al-Islam á nokkurn hátt. Ráðamenn í Damascus hafi fyrirskipað handtökur helstu leiðtoga þeirra og veitt alþjóðalögreglunni, Interpol, aðstoð til að ná því markmiði sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×