Erlent

Enn barist í Líbanon

Jónas Haraldsson skrifar
Líbanskir hermenn sjást hér leita skjóls í átökunum við liðsmenn Fatah Islam.
Líbanskir hermenn sjást hér leita skjóls í átökunum við liðsmenn Fatah Islam. MYND/AFP
Stjórnvöld í Líbanon hafa heitið því að halda áfram sókn sinni gegn palestínskum öfgamönnum sem herja á borgina Tripólí um þessar mundir.

Allt í allt hafa 40 manns látið lífið í bardögum öfgamanna og hersins í Trípóli. Átökin, sem hófust á sunnudagsmorgunin, eru þau skæðustu í Líbanon síðan borgarastyrjöldinni lauk þar í landi fyrir 17 árum. Öfgamennirnir hafa aðsetur í palestínskum flóttamannabúðum og kalla sig Fatah Islam. Talið er að hópurinn tengist al-Kaída.

Átökin hófust eftir að öryggissveitir lögreglunnar í Líbanon gerðu áhlaup á byggingu í Tripóli til þess að handtaka grunaða bankaræningja. Þar fundu þeir fyrir liðsmenn Fatah Islam sem vörðust öryggissveitunum og gerðu síðar gagnárásir á stöðvar hersins staðsettar við flóttamannabúðirnar. Líbanski herinn hefur í morgun gert árásir á stöðvar Fatah Islam við inngang flóttamannabúðanna.

Í Líbanon eiga heima meira en 350 þúsund palestínskir flóttamenn og hafa margir þeirra búið þar síðan Ísrael var stofnað árið 1948. Líbanski herinn má ekki koma inn í flóttamannabúðirnar samkvæmt nærri 40 ára gömlu samkomulagi. Þær hafa verið undir ströngu eftirliti eftir sprengingar í febrúar síðastliðnum en talið er að liðsmenn Fatah Islam, sem hafa aðsetur í búðunum, hafi staðið að baki þeim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×