Erlent

Háar stunur á svölunum

Óli Tynes skrifar
Svalir eru til margra hluta nytsamlegar.
Svalir eru til margra hluta nytsamlegar.

Hjón í Middelfart á Fjóni í Danmörku vöknuðu við einhvern undarlegan hávaða síðastliðna nótt. Eftir að hafa hlustað nokkra stund fóru þau framúr til þess að kanna hvaða hljóð þetta væru og hvaðan þau kæmu. Þau gengu á hljóðið og sú ganga leiddi þau að svaladyrunum. Þau kíktu út.

Og á svölunum í góða veðrinu sem nú er í Danmörku, var ungt par í villtum ástarleik. Hjónunum var nokkuð brugðið en höfðu þó rænu á að hringja í lögregluna. Ekki er vitað hvort parið varð vart við umgang inni í húsinu eða hvort það hafði bara lokið sér af. En það var horfið þegar lögreglan kom á staðinn.

Lögreglan segir að ef hún hefði náð í stélfjaðrirnar á turtildúfunum hefðu þær þurft að borga mörg þúsund krónur í sekt fyrir að særa blygðunarkennd hjónanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×